Forvarnir eru þær varúðarráðstafanir sem við gerum til þess að koma í veg fyrir eða draga úr hættu á tjóni. Það er innbyggt í flesta ábyrga einstaklinga að læsa húsum sínum, slökkva á eldavél, skrúfa fyrir vatn, spenna bílbeltin o.s.frv. En það er margt annað sem hægt er að gera til að vernda hagsmuni fjölskyldunnar án þess að kosta miklu til.

Þegar heimilið er yfirgefið yfir daginn skal ætíð hafa hurðir læstar og glugga lokaða og krækta aftur. Mikilvægt er að krækjur á gluggum séu traustar og læsingar sterkar og af viðurkenndri gerð. Góð lýsing utan dyra fælir þjófa frá. Eru allar hurðir læstar – og útigeymslan? Er glugginn í þvottahúsinu lokaður? Eru öll áhöld, reiðhjól og önnur tæki læst inni?
 

Nokkur atriði til að muna:

 
1. Verið með nýleg “þjófheld” stormjárn í gluggum. Hægt er að fá þau í byggingavöruverslunum.

2. Hafið húsnúmer vel sjáanlegt frá götu.

3. Trjágróður má ekki skyggja sýn á húsið frá nágrönnum og götum.

4. Læsið stiga og önnur tól sem hægt er að nota til innbrots inni.

5. Ekki láta þá sem standa fyrir utan húsið sjá verðmæti eins og fartölvur, myndavélar og annað sem auðvelt er að koma í verð.

6. Heppilegt er að koma dýrmætum hlutum eins og frímerkja- eða myntsafni, dýrum skartgripum o.þ.h. fyrir á öruggum stað, t.d. í bankahólfi. Haldið skrá yfir hluti - t.d. myndir af hlut og raðnúmer.
 

Farið að heiman yfir daginn:


1. Áframstillið heimasíma í vinnu eða farsíma. Innbrotsþjófar hringja oft á undan sér til að vita hvort einhver sé heima.

2. Einnig er gott að skilja eftir útvarp í gangi, hæfilega hátt stillt og hafa ljós kveikt á sýnilegum stað í húsinu.
 

Önnur almenn öryggisatriði:


1. Eru sjúkragögn á staðnum og eru þau yfirfarin reglulega?
2. Eru eldvarnarteppi til staðar og stakir  reykskynjarar á staðnum / virkir?
3. Eru reykskynjarar vel staðsettir?
4. Eru vatnskynjarar á staðnum?
5. Er bruna- og innbrotaviðvörunarkerfi?
6. Er neyðarstigi fyrir ofan 2.hæð?
7. Eru brunaslöngur?
8. Er rafmagnstafla aðgengileg og rofar vel merktir?
9. Eru neyðarútgangar vel merktir?
10. Eru flóttaleiðir greiðar?
11. Skapa gólfefni hættu á falli?
12. Eru reykingar leyfðar?
13. Er vel gengið frá rafmagnsinnstungum?
14. Er sérstök hætta s.s. gaskútar, eldfim efni?
15. Er greið leið fyrir slökkvilið, sjúkrabíl að húsinu?
 
Ímyndið ykkur að þið séuð læst úti...hvernig mynduð þið komast inn?
Þannig hugsar þjófurinn og hann notar sömu aðferð og þú.