Hægt er að auka öryggi fjölskyldunar með forvörnum sem og réttum búnaði. Forvarnir felast m.a. í því að fara ætíð varlega með eld, að alltaf sé vel gengið frá öllum leiðslum s.s. gasleiðslum, raflögnum o.þ.h.

Eitt helsta forvarnartækið í hjólhýsum og öðrum sambærilegum gripum er gasskynjari. Slíkt tæki nemur minnsta gasleka og lætur þá vita sem í hýsinu eru vita svo hægt sé að bregðast rétt við í tíma. Gasskynjarar eru lítil, ódýr og einföld tæki sem þó gera ómælt gagn ef gas byrjar að leka í litlu, vel einangruðu rými sem fellihýsi, tjaldvagnar, húsbílar og hjólhýsi eru alla jafnan.

Rétt viðbrögð eru mikilvæg ef atvik koma upp og þá er grátlegt ef ekki er til undirstöðubúnaður eins og slökkvitæki, eldvarnateppi og sjúkrapúði. Flestir eldar byrja sem litlir staðbundnir eldar sem síðan vaxa hratt ef ekkert er að gert. Eldur sem kemur upp í fellihýsi eða hjólhýsi magnast gríðarlega hratt og skilur eftir sig brunarúst á örfáum mínútum.
 
Slökkvitæki á aðgengilegum stað getur því gert gæfumuninn og komið í veg fyrir að ferðalagið breytist í martröð. Einnig er nauðsynlegt að vera með eldvarnarteppi sem staðsett er nálægt grillinu en grillið er nú orðið ómissandi þáttur í hverri útilegu. Sjúkrapúðar eiga að vera í hverri bifreið og helst hverju ferðahýsi sem dregið er.
 

Hafið þessi atriði í huga:

 
1. Er rafmagnstengið á hýsinu í lagi?

2. Er slökkvitæki í hýsinu?

3. Er gasskynjari uppsettur og virkur?

4. Er eldvarnarteppi til staðar?

5. Er sjúkrapúði eða kassi til staðar?

6. Eru demparar í lagi? Ýtið ofan á þá til að prófa.

7. Eru dekkin í lagi?

8. Virka stefnu- og stöðvunarljós að aftan sem skyldi?