Þegar húseign er skilin eftir í langan tíma þarf að vera tryggt að einhver fylgist með henni. Komi eitthvað fyrir, t.d. rúða brotnar, rör springur eða ísskápur/frystikista bilar, er hægt að gera ráðstafanir. Takið ávallt rafmagnstæki úr sambandi og einnig sjónvarpsloftnet þegar þið farið í burtu í einhvern tíma.

Þjófar leita uppi húseignir sem eru yfirgefnar. Því er mikilvægt að ekki sé augljós fjarvera heimilisfólks. Sá sem lítur eftir húseigninni þarf að taka dagblöð og póstinn svo ekki sjáist að hann safnist fyrir. Hann mætti setja rusl í ruslatunnuna svo hún standi ekki lengi tóm. Þá má gjarnan láta sum ljós vera logandi. Það má t.d. festa kaup víða á sérstökum tímarofa sem kveikir og slekkur ljósin reglulega til þess að villa um fyrir hugsanlegum innbrotsþjófum. Látið stiga ekki liggja á glámbekk í garðinum.

Það er mjög gott að skrá verðmæta muni (skrá raðnúmer ef það á við), s.s. sjónvarp, tölvu, myndavélar og skartgripi og helst taka myndir af hlutum.
 

Nokkur atriði til að muna:


1. Mestu skiptir að heimilið líti út fyrir að einhver sé heima.

2. Muna verður eftir símsvaranum, að hann tilkynni ekki um fjarveru íbúa og hversu lengi þeir verða í burtu.

3. Kappkosta þarf að það líti út fyrir að einhver sé heima t.a.m. með því að hafa þvott á snúru og fá nágranna til að nota bílastæðið.

4. Það má ekki vera póstur sem auglýsir fjarveru íbúa.

5. Biðja vini og vandamenn um að koma reglulega og breyta ljósum.
 
6. Ef þess er kostur er upplagt að virkja nágrannana til þess að fylgjast með íbúðinni. Þeir eru líklegir til að verða varir við óeðlilegar mannaferðir og geta e.t.v. lagt bílnum sínum í innkeyrsluna þína.

7. Rétt er að gera skrá yfir aðra verðmæta hluti og jafnvel taka myndir af þeim til að eiga ef menn yrðu svo óheppnir að verða fyrir barðinu á innbrotsþjófum.

8. Loðinn grasblettur getur gefið vísbendingar um mannlaust hús.

9. Gæta þarf þess að ganga tryggilega frá hurðum og gluggum og skilja ekki varalykil eftir á vafasömum stað.