Þú vilt koma að sumarhúsinu þínu í jafn góðu ástandi og þú skildir við það.  Þar sem sumarhús eru alla jafna oft mannlaus þarf að huga sérstaklega vel að öryggismálum í þeim og hvernig skilið er við þau.
 

Gagnleg atriði til að hafa í huga:

 
1. Bruni - Farið vel yfir brunavarnir í sumarhúsinu. Reykskynjarar eiga að vera í öllum rýmum, eldvarnarteppi miðsvæðið og slökkvitæki þar sem auðvelt er að komast að því. Gott er að gera rýmingaráætlun ef til bruna kemur til að flýta fyrir björgun.
Aldrei skal skilja eftir logandi kertaljós og fara skal varlega með opinn eld í og við sumarhúsið.

2. Rafmagn - Gætið þess að hönnun raflagna í sumarhúsinu sé eftir byggingareglugerðum og mikilvægt er að fagmenn sjái um að ganga frá öllu rafmagni. Athugið að aldrei má leggja fatnað á rafmagnsofna. Munið að taka ávallt raftæki úr sambandi þegar sumarhúsið er yfirgefið.

3. Innbrot - Gangið vel frá öllum gluggum og hurðum og athugið sérstaklega glugga- og hurðalæsingar. Skiljið sumarhúsið aldrei eftir opið á meðan enginn er í því og látið verðmæti aldrei liggja á glámbekk. Geymið ekki einstaka verðmæta hluti í sumarhúsinu. Gott er að biðja nágranna að líta til með húsinu þegar þú ert ekki á staðnum.

4. Vatn - Hitaveituvatn á Íslandi getur verið hættulega heitt og því óvarlegt að skilja lítil börn ein eftir í eða við heita potta. Taktu vatn af húsinu við brottför ef hætta er á næturfrosti og mögulegum frostskemmdum vegna þess.

5. Gas - Gastæki eru algeng í sumarhúsum. Best er að staðsetja gaskútinn utandyra í sumarhúsum, búa vel um hann og láta fagmenn sjá um allan frágang. Geymið gasgrill aldrei innanhúss, né varagaskúta. Staðsetjið gasgrill aldrei upp við húsið og nálægt rúðum. Passið sérstaklega að láta gaskútinn ekki standa undir heitu grillinu.