Er heimilið þitt öruggt?

Ísland hefur lengi verið talið eitt öruggasta land í heimi, en því miður hafa innbrot og gripdeildir færst í aukana. Innbrot á heimili eru gjarnan vandlega ígrunduð. Búið er að kortleggja hvenær heimilið er mannlaust, hvaða leiðir eru færar inn á það o.s.frv. Þess vegna hvetjum við fólk eindregið til að fara yfir öryggismálin og gera úrbætur þar sem við á. Hér eru nokkrar hugmyndir að leiðum til að auka öryggi heimilisins þegar maður er að heiman.

Eru allir gluggar og hurðir lokaðir?

Það er mikilvægt að huga að gluggunum áður en farið er að heiman og loka þeim öllum. Ef um fúa er að ræða kringum glugga er brýnt að endurnýja þá því annars er auðvelt að brjóta þá upp. 

Það skiptir máli að hafa traustar læsingar á hurðum inn á heimilið og endurnýja þær, séu þær úr sér gengnar. Best er að taka svalahurðina með þegar maður fer yfir gluggana og læsa svo útidyrahurðinni tryggilega. Þetta skiptir alltaf máli, jafnvel þótt maður bregði sér aðeins af bæ í skamma stund því allur er varinn góður. Með Snjallöryggi getur maður fylgst með því úr símanum hvort gluggar eða dyr séu opnar.

Er öryggiskerfið á?

Það er til lítils að vera með öryggiskerfi ef maður virkjar það aldrei. Rétt eins og með að læsa útidyrahurðinni er langbest að setja kerfið á jafnvel þótt maður sé bara rétt að skreppa. Fólk sem ekki er með öryggiskerfi ætti að hugleiða að það hefur aldrei verið jafn einfalt, aðgengilegt og ódýrt að auka öryggi heimilisins með snjöllum lausnum. Með Snjallöryggi getur maður gert öryggiskerfið virkt og óvirkt úr símanum og litið til með heimilinu gegnum öryggismyndavélar til að fullvissa sig um að allt sé með friði og spekt. 

Er líf í húsinu?

Þegar ferðalag er í vændum er mjög gott að biðja nágranna eða ástvin um að líta eftir heimilinu. Koma við til að vökva blóm, slá garðinn, hirða um uppsafnaðan póst o.s.frv. Vanhirtur garður og uppsafnaður póstur er vísbending fyrir innbrotsþjófinn um að maður sé að heiman. Með Snjallöryggi og sérstökum snjallperum er hægt að stjórna lýsingu á heimilinu og láta ljós kvikna á sömu tímum og vanalega, sem líkir eftir því að fólk sé í húsinu.

Er varalykillinn vel falinn?

Velji fólk að hafa varalykil inn á heimilið er mikilvægt að gæta þess að hann sé ekki á augljósum stað eins og undir dyramottunni eða á krók við bílskúrshurðina. Gott er að biðja nágranna um að geyma aukalykil. Svo má líka setja lykil í box og grafa á góðum stað í garðinum eða nota læst lyklahólf. Ákjósanlegast er náttúrulega að sleppa aukalyklum en með einföldum Snjalllás frá Öryggismiðstöðinni getur maður hleypt fólki inn eftir hentisemi. 

Ertu í útlöndum á samfélagsmiðlum?

Að birta myndir af sér í fríi að heiman á samfélagsmiðlum gefur innbrotsþjófum til kynna að nú sé hentugt að brjótast inn á heimilið. Við mælum með að birta frekar myndasafn þegar heim er komið.

Hvað með elds- og vatnstjón? 

Innbrot eru auðvitað ekki eina hættan sem steðjar að heimilinu. Það þarf líka að fylgjast með heimilinu með tilliti til elds- og vatnstjóna. Með Snjallöryggi getur maður fylgst með hitastigi á heimilinu í gegnum símann, fengið boð frá reykskynjurum, stjórnað raftækjum og fengið boð ef um vatnsleka er að ræða og þannig lágmarkað tjón með skjótum viðbrögðum.

Hafðu samband! Við bjóðum við upp á ókeypis öryggisráðgjöf. Þú finnur allt um þjónustu Öryggismiðstöðvarinnar á oryggi.is.