Blogg
Brunavarnir á aðventunni og yfir hátíðarnar
Senn líður að jólum og í aðdraganda þeirra erum við Íslendingar mjög duglegir við að lýsa upp skammdegið með alls kyns jólaljósaskreytingum, kertum og aðventukrönsum.
Eitt af því sem aldrei má gleymast í undirbúningi jólanna er að yfirfara brunavarnir heimilisins til að ganga úr skugga um að þær séu í toppstandi. Öryggismiðstöðin vill með þessu bloggi fara yfir það helsta sem þarf að huga að til að tryggja rétt viðbrögð ef ske kynni að eitthvað fari úrskeiðis með þeim afleiðingum að eldur kviknaði.
Brunavaldar í kringum jól og áramót
Það er staðreynd að flestir brunar á heimilum fólks verða í desembermánuði. Upptök þeirra má oftast rekja til þess að eitthvað fer úrskeiðis í tengslum við eldamennsku og eldunartæki eða þá að það kviknar í út frá kertum og jólaskreytingum.
Nokkuð algengt er að notaðar séu gamlar ljósaseríur og rafmagnsskreytingar sem hafa tilfinningalegt gildi fyrir fólk en standast ekki nútímakröfur um öryggi. Bilaðar perur og kaplar geta t.d. valdið ofhitnun eða útleiðslu. Þá fer eldhætta af alls kyns nýrri raf- og hleðslutækjum vaxandi samhliða aukinni notkun á slíkum búnaði.
Utanhúss er mesta eldhættan alltaf tengd notkun flugelda og annars varnings sem kveikt er í kringum áramótin. Síðan þarf að passa vel upp á útikertin, að staðsetja þau ekki of nálægt húsveggjum eða eldfimum hlutum og það má alls ekki setja þau óvarin beint ofan á timburpalla.
Reykskynjarar
Reykskynjarar geta bjargað mannslífum og eiga að vera til á öllum heimilum og helst í hverju herbergi. Hægt er að hafa reykskynjara í stærri byggingum samtengda þannig að allir byrja að pípa ef einn fer í gang. Þá er einnig hægt að tengja reykskynjara við öryggiskerfi sem er vaktað allan sólarhringinn af stjórnstöð Öryggismiðstöðvarinnar.
Nauðsynlegt er að prófa reykskynjara minnst einu sinni á ári og góð regla er að skipta þá um rafhlöður í leiðinni. Dagur reykskynjarans er haldinn 1. desember ár hvert og því er upplagt að nýta þann dag til að yfirfara þá. Nýrri reykskynjarar geta verið búnir rafhlöðum sem endast í 5–12 ár.
Eldvarnarteppi
Eldvarnarteppi þurfa að vera til á hverju heimili, vera vel sýnileg en ekki staðsett of nærri eldavélinni ef eldur skyldi kvikna á henni. Teppin henta mjög vel til að slökkva minni elda eins og t.d. í steikingarfeiti og minni raftækjum. Eldvarnarteppið er lagt yfir eldinn og látið liggja þar til hann er að fullu slökknaður. Mikilvægt er að hafa í huga að nota alls ekki vatn til að reyna að slökkva eld í feiti eða raftækjum.
Slökkvitæki
Slökkvitæki eiga að vera til á öllum heimilum, staðsett á áberandi stöðum þar sem auðvelt er að nálgast þau. Best er að hafa þau hengd á vegg með handfangið í 80–90 cm hæð í grennd við flóttaleiðir, hentug staðsetning er nærri útgöngum og í anddyrum.
Slökkvitækin á heimilinu þarf að yfirfara reglulega til að kanna bæði fyllingu og þrýsting. Hjá Öryggismiðstöðinni við Askalind 1 í Kópavogi er hægt að fá slökkvitæki skoðuð og þjónustuð.
Flóttaleiðir
Mikilvægt er að tryggja að það séu greiðar flóttaleiðir úr öllum rýmum heimilisins og að það séu að lágmarki tvær flóttaleiðir færar út úr íbúðinni/húsinu. Fyrir efri hæðir í húsum er hægt að fá netta stiga til að setja út um glugga ef aðrar flóttaleiðir lokast vegna elds eða reyks. Það á aldrei að setja sig í hættu við að nota slökkvitæki eða eldvarnarteppi, reyna frekar að loka af rými ef tími leyfir, forða sér út og hringja í Neyðarlínuna 112.
Þú finnur mikið og gott úrval brunavarna, svo sem reykskynjara, eldvarnarteppi og slökkvitæki, í vefverslun Öryggismiðstöðvarinnar á www.oryggi.is.