Blogg
Hollráð gegn innbrotum
Þegar farið er í frí er mikilvægt að hafa ákveðna hluti í huga varðandi það að vernda húsið gegn innbrotum.
Ímyndaðu þér að þú sért læst/ur úti. Hvað gerir þú til að komast inn? Þjófar nota líklegast sömu aðferð!
Fyrst og fremst er gott að láta alltaf líta út fyrir að einhver sé heima við. Hljóð frá raftækjum eins og sjónvarpi og útvarpi fæla þjófa frá, en það er hægt að bæta við snjallreglu í öryggiskerfið sem gerir þér kleift að kveikja á raftækjum og slökkva/kveikja ljós.
Ef þú hefur tök á, væri best að fá til dæmis nágranna til þess að fjarlægja póst og blöð úr bréfalúgunni eða póstkassanum svo það verði ekki augljóst fyrir utan að enginn sé heima. Ef þú ferð að heiman að vetrarlagi er gott að fá nágranna eða einhvern nákominn til þess að setja fótspor að inngangi heimilisins.
Mikilvægt er að allar hurðir séu vandlega lokaðar og læstar, gluggar kræktir aftur og að læsingarnar séu traustar og sterkar af viðurkenndri gerð. Lýsing er einnig góð þjófafæla, þá sérstaklega í bakgarði þar sem þjófurinn hefur ef til vill meiri frið til að athafna sig. Læstu inni verðmætustu hlutina utandyra á borð við hjól, hlaupahjól og tæki sem líklegt er að þjófurinn hefði augastað á. Stigar og fleiri verkfæri sem þjófurinn gæti nýtt sér, ættu alltaf að vera kyrfilega læst inni.
Verðmæti innandyra, svo sem tölvur og fleiri raftæki, ættu ekki að vera í augnsýn ef litið er inn um gluggann. Ef um einstaklega verðmæta hluti er að ræða, jafnvel þá sem hafa tilfinningalegt gildi á borð við safngripi, snjalltæki eins og spjaldtölvur, dýra skartgripi og fleira, skal þeim komið fyrir í læstum verðmætaskápum eða bankahólfi.