Fara á efnissvæði
Mínar síður Leita

 Leita
EN
Mínar síður 0 Karfa

Blogg

Nokkur ráð til að auka öryggi aldraðra heima

Aldraðir eiga meira á hættu að slasa sig heldur en þeir sem yngri eru og því miður verða flest slys á öldruðum innan veggja heimilisins. En hvað er hægt að gera til að auka öryggi aldraðra á heimilinu? Við tókum saman nokkur atriði sem almennt er gott að hafa í huga þar sem aldraðir búa.

1. Góð lýsing

Góð lýsing eykur öryggi aldraðra. Sérstaklega á stöðum sem er auðvelt að gleyma eins og á göngum og þar sem þarf að beygja fyrir horn til að komast leiðar sinnar. Stigar eru öruggastir þegar þeir eru vel lýstir og rofar til að kveikja ljós bæði ofan og neðan við þá. Leiðin á baðherbergið þarf að vera vel lýst að nóttu til t.d.með náttlampa við rúmið og náttljósum í innstungum á gangi.

2. Rafmagn og tækni

Rafmagnssnúrur eiga ekki að liggja á víð og dreif heldur vera festar við veggi með sérstökum festingum. Allur búnaður sem notar rafmagn má tímastilla og snjallvæða. Það getur til dæmis verið ráðlegt að skipta út eldhústækjum fyrir tæki sem slokknar á af sjálfu sér eða fjárfesta í öðrum sjálfslökkvandi lausnum eins og innstungum sem rjúfa straum eftir ákveðinn tíma.

3. Heitt vatn, heitir drykkir, heitur matur

Bráðnauðsynlegt er að hafa hitastilli á blöndunartækjum því hitaveituvatn getur orðið hættulega heitt. Best er að aldraðir þurfi ekki að fara langt með heitan mat eða drykki til að setjast og njóta þeirra. Við mælum svo með því að ofnar og örbylgjuofnar séu í vinnuhæð svo ekki skapist hætta af því að þurfa að beygja sig eða teygja sig upp eftir heitum mat.

4. Handföng og handrið

Það er mjög mikilvægt að hafa handrið beggja vegna við stiga. Einnig getur þurft handföng til stuðnings við að fara á salernið eða ofan í baðkar. Hérna skiptir fyrirhyggjan miklu máli því það sem virðist aðeins til þæginda fyrst um sinn getur forðað falli þegar fram líða stundir.

5. Gólf og undirlag

Það krefst ákveðinnar rannsóknarvinnu að tryggja að öll gólf og allt undirlag sé þannig að öruggt sé að ganga á því. Í þeirri vinnu þarf að hafa í huga að krumpuð eða slitin gólfteppi, uppábrett horn á mottum, lausar mottur, sleip gólfefni o.s.frv. skapa mikla hættu fyrir aldraða. Stamar mottur og þar til gerðir stamir límmiðar t.d. í stigum, á baðherbergi eða ofan í baðkari koma í veg fyrir að aldraðir renni og slasi sig.

6. Húsgögn og lausamunir

Hér skiptir hæð hlutanna öllu máli. Hvernig er að stíga fram úr rúminu? Hvernig er að setjast á og standa upp úr sófanum? Er allt það nauðsynlegasta til staðar í öruggri hæð fyrir þann aldraða, t.d. í eldhúsinu eða á baðherberginu? Allt eru þetta mikilvægar spurningar og eins spursmálið hvort of mörg húsgögn geri þeim aldraða erfitt fyrir að ganga um heimilið, hvort horn séu hættulega oddhvöss og fleira í þeim dúr.

7. Öryggishnappur

Í dag er öryggishnappur orðinn að staðalbúnaði á heimilum aldraðra, enda þeim lífsnauðsynlegt að geta kallað eftir hjálp. Öryggishnappur veitir notanda hans tækifæri að njóta aukins öryggis heima við og hugarró um að viðbragð er ávallt innan handar ef eitthvað kemur upp á. Öryggishnappurinn er niðurgreiddur af Sjúkratryggingum Íslands að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Að lokum

Það er hægt að ná góðum árangri í að gera líf aldraðra heima öruggara án mikillar fyrirhafnar.

Eins viðkvæmt og það getur verið að gera breytingar á heimili ástvinar er mikilvægt að leyfa hlutunum ekki bara að vera hættulegir af því þannig hafa þeir alltaf verið. Mörgum hefur reynst vel að leita til sjúkraþjálfara eða iðjuþjálfa og fá hlutlausa úttekt á öryggi heimilisins en það er þjónusta sem býðst öldruðum. Ráðgjafar Öryggismiðstöðvarinnar geta aðstoðað við mat á hvers konar öryggisbúnaður hentar og eins við að bæta brunavarnir heimilisins, en rannsóknir sýna að þeim er oft ábótavant hjá eldra fólki. Ef þú ert að hugleiða öryggi ástvinar hafðu endilega samband við okkur! Við erum til þjónustu reiðubúin.

Ólafía Ragnarsdóttir

Ráðgjöf og sala / sjúkraliði Velferð og ráðgjöf

Diljá Guðmundardóttir

Sérfræðingur í heilbrigðislausnum / sjúkraþjálfari Velferð og ráðgjöf

Pantaðu tíma í ráðgjöf

Ráðgjafar okkar eru við símann núna.

Eða hringdu í síma

570 2400