Fara á efnissvæði
Mínar síður Leita

 Leita
EN
Mínar síður 0 Karfa

Blogg

Tækifæri í fjarheilbrigðisþjónustu

Þann 30. janúar sl. stóð Öryggismiðstöðin fyrir ráðstefnu á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni Tækifæri í fjarheilbrigðisþjónustu. Ráðstefnan var haldin í samvinnu við norska heilsutæknifyrirtækið Dignio sem hefur þróað hugbúnað og app sem fjölmörg sjúkrahús og stofnanir í Skandinavíu og víðar nota til að halda utan um sína fjarþjónustu. Beint streymi var frá ráðstefnunni fyrir þau sem ekki gátu verið viðstödd í eigin persónu.

Meðal þeirra sem fluttu erindi var Tonje Holm, hjúkrunarfræðingur, sem starfar á Akershus háskólasjúkrahúsinu í útjaðri Osló. Hún er þar hluti af sérstöku teymi sem innleiðir fjarheilbrigðisþjónustu en sjúkrahúsið leggur mikla áherslu á slíka þjónustu. Akershus sjúkrahúsið er í dag með rúmlega 3.600 skjólstæðinga sína í fjarþjónustu utan sjúkrahússins, hjá 16 deildum. Með notkun skjábúnaðar hefur tekist að draga verulega úr heimsóknum á sjúkrahúsið og fólk fær þannig þjónustuna heim til sín í stað þess að þurfa að mæta staðinn.

Með þessu móti hefur sjúkrahúsið bæði komið í veg fyrir óþarfa innlagnir og aukið skilvirkni í samskiptum heilbrigðisstarfsfólks við skjólstæðinga sína. Tonje Holm segir sjúkrahúsið nota Dignio sem vettvang samskipta milli lækna og sjúklinga og á þann hátt sé sjúklingunum veitt meiri umönnun og betra eftirlit, þeir upplifi sig í nánara sambandi við spítalann og ef þeir hafa einhverjar spurningar fá þeir svar samdægurs eða daginn eftir.

Sarah Wu, sérfræðingur hjá Dignio, kynnti reynslu Norðmanna af kerfi Dignio sem hefur verið í notkun í Noregi í rúm 10 ár hjá yfir 200 sveitarfélögum og sjúkrahúsum. Hún segir reynsluna vera þá að skjólstæðingar öðlist meiri lífsgæði og verði raunverulega heilbrigðari; innlögnum á sjúkrahús fækki og starfsumhverfi í heilbrigðiskerfinu batni. Megintilgangur Dignio er að tengja saman lækna og sjúklinga í heimahúsum, minnka þörf á innlögnum og draga úr sérfræðiráðgjöf inni á sjúkrahúsunum og spara þannig útgjöld í heilbrigðiskerfinu. Sara segir fjarheilbrigðisþjónustu vera áhugaverðan kost fyrir Ísland því landið er strjálbýlt og víða langt að fara til að sækja heilbrigðisþjónustu. Hún segir að Skandinavísku löndin, þá einkum Noregur og FInnland, hafi þegar stigið stór skref í þessa átt og ef Íslendingar velji að fara þessa leið þá geti innleiðing hér gengið hraðar fyrir sig en á hinum Norðurlöndunum.

Margrét Björk Ólafsdóttir og Anna Margrét Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingar á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, fjölluðu um innleiðingu á fjarheilbrigðisþjónustu í heimahjúkrun sem HSU hóf snemma á árinu 2023. Verkefnið var unnið í samstarfi við Öryggismiðstöðina og HSU varð þar með fyrsta stofnunin á Íslandi til að innleiða fjarheilbrigðisþjónustu með kerfi Dignio.

Skjólstæðingar skrá sig inn með rafrænum skilríkjum, gera sjálfir mælingar heima og heilbrigðisstarfsfólk skoðar síðan niðurstöðurnar í appinu. Margrét Björk segir þetta auka mjög á öryggi sjúklinga og draga verulega úr vitjunum heim til fólks. Sjúklingar eru virkari í að fylgjast með eigin heilsu og taka á henni ábyrgð, auk þess sem grípa má hraðar inn í ef þess gerist þörf, áður en fólk þarf að leita á bráðamóttöku eða leggjast inn á sjúkrahús. Þær telja fjarheilbrigðisþjónustu vera það sem að koma skal og sjá fyrir sér að í framtíðinni verði hægt að fylgjast með enn stærri hópi skjólstæðinga HSU á þennan hátt.

Diljá Guðmundardóttir

Sérfræðingur í heilbrigðislausnum / sjúkraþjálfari Velferð og ráðgjöf

Pantaðu tíma í ráðgjöf

Ráðgjafar okkar eru við símann núna.

Eða hringdu í síma

570 2400