Fara á efnissvæði
Mínar síður Leita

 Leita
EN
Mínar síður 0 Karfa

Blogg

ÚLFUR ÚLFUR, BRUNABJALLAN GLYMUR

Öll dveljum við reglulega á stöðum sem vöktuð eru af brunaviðvörunarkerfum.

Þetta gildir um flesta vinnustaði, skóla, verslanir, kvikmyndahús og veitingastaði, svo fátt eitt sé nefnt. En hvernig bregst fólk við ef brunabjallan glymur? Okkar reynsla er því miður sú að allt of margir bregðast ekki rétt við. Fát kemur á marga, þeir virðast jafnvel gera ráð fyrir að um falsboð sé að ræða eða átta sig ekki almennilega á hvaða viðbrögð eru viðeigandi. Þarna gildir það sama eins og svo víða, æfingin skapar meistarann.

Í kjölfar nýlegs stórbruna í Garðabæ hefur sjónum verið beint að mikilvægi réttra og viðeigandi brunavarna og viðbrögðum við eldsvoða.
Mikilvægt er að huga að afleiðingum eldsvoða og skiptir öllu að brunahætta sé ekki vanmetin. Það er skýrt í lögum að eigendum og rekstraraðilum fyrirtækja ber að halda úti eigin eldvarnareftirliti. Slíkt eftirlit hefur það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir manntjón, slys, heilsu- og eignatjón.
Stjórnendum smærri fyrirtækja hentar yfirleitt vel að halda utan um eigið eldvarnareftirlit sjálfir. Meðalstór og stærri fyrirtæki ættu að fá aðstoð fagaðila við að skipuleggja vinnuna og sjá um að kenna starfsfólki hvernig staðið er rétt að verkferlum.

Þegar kemur að verklega þættinum eru nokkur afar mikilvæg atriði:
• Að flóttaleiðir séu auðar og auðrataðar, vel merktar og starfsfólk þekki þær.
• Brunaviðvörun sé til staðar og í lagi.
• Brunahólfun húsnæðis sé í lagi og í samræmi við hönnun.
• Einnig er lykilatriði að viðeigandi slökkvibúnaður, eins og slökkvitæki og brunaslöngur, sé yfirfarinn og í góðu lagi, festur upp og staðsetning merkt sérstaklega.

Ábyrgðaraðilar verða að meta og gera sér grein fyrir brunaálagi, áhættu við geymslu á hættulegum efnum, og huga að því að þessi efni séu geymd í samræmi við reglur, brunahönnun og samþykktar teikningar.
Viðbragðs- og rýmingaráætlun þarf að vera til staðar, vel skipulögð og upplýsingar um rétt viðbrögð við eldsvoða settar upp á aðgengilegum stöðum.

Kynna þarf rýmingaráætlun fyrir öllum starfsmönnum, sýna þeim rýmingarleiðir og safnstað þar sem hittast skal við rýmingu húsnæðis. Æfingin skapar meistarann og því ætti að halda rýmingaræfingar árlega fyrir alla starfsmenn.
Sem ábyrgir starfsmenn, nemar eða viðskiptavinir sem er annt um eigin velferð, þá eigum við að spyrja spurninga. Hvernig er eldvarnarmálum háttað hér, hvenær var síðast haldin rýmingaræfing?

Stóra spurningin er svo, hvað ætlar þú að gera næst þegar brunabjallan glymur? Rétt viðbrögð gætu hæglega bjargað lífi þínu.

Þengill Ólafsson

Viðskiptastjóri Sala og ráðgjöf
Kristófer Lúðvíksson

Kristófer Lúðvíksson

Öryggisráðgjafi Sala og ráðgjöf

Pantaðu tíma í ráðgjöf

Ráðgjafar okkar eru við símann núna.

Eða hringdu í síma

570 2400