Almennar fréttir
Fólk geti verið fullvisst um að öryggishnappar virki
Öryggismiðstöðin hefur síðustu ár uppfært alla öryggishnappa á þeirra vegum svo þeir tengist í gegnum 4G-net. Áður tengdust hnapparnir 2G- eða 3G-neti og hefðu því orðið óvirkir þegar slökkt verður á síðustu 3G-sendunum í mars.
Lokunin getur haft áhrif á ýmsan búnað, eins og gömul símtæki, posa og greiðslulausnir sem byggjast á 2G eða 3G.
Ómar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri velferðarlausna hjá Öryggismiðstöðinni, segir fyrirtækið hafa unnið að uppfærslu á öryggishnöppum síðustu ár.
Þetta náttúrlega kom ekki alveg af himnum ofan, þessi breyting að 2G og 3G yrði lokað, þannig að í rauninni fyrir bara tveimur, þremur árum síðan þá skiptum við um búnað og fórum að setja upp 4G-hnappa. Síðustu misseri hafa allir nýir hnappar verið 4G. Við kláruðum síðan útskipti á eldri hnöppum á síðasta ári. Þannig að fyrir lok árs voru allir öryggishnappar tengdir inn á 4G, segir Ómar.
Mikilvægt að fólk geti treyst á aðstoð
Samskiptaleið hnappanna sé vöktuð með reglulegum prófunarboðum. Öryggismiðstöðin geti því brugðist hratt við beri eitthvað út af.
Það er gríðarlega mikilvægt að fólk geti treyst á það að ef það kallar eftir aðstoð í gegnum öryggishnapp að sú aðstoð berist á réttan stað. Þannig að það er búið að huga vel að þessu öllu,“ segir Ómar.
Fólk með öryggishnappa frá Öryggismiðstöðinni geti því verið fullvisst um að þeir virki.
Búnaður sem keyptur hafi verið af Öryggismiðstöðinni en sem sé ekki vaktaður af fyrirtækinu, til dæmis hlið að sumarbústöðum, gæti hætt að virka þegar slökkt verði á 2G og 3G. Þennan búnað gæti þurft að uppfæra eða skipta út.
Þúsundir nýta sér öryggishnappa Öryggismiðstöðvarinnar. Ómar segir langflesta fá þá niðurgreidda af Sjúkratryggingum Íslands.
Þetta er gríðarlega öflug þjónusta sem hjálpar fólki verulega að búa heima, að geta kallað eftir aðstoð hvenær sem er sólarhringsins alla daga ársins.