Heimar er eitt stærsta fasteignafélag landsins og er leiðandi á íslenskum markaði í rekstri atvinnuhúsnæðis og þjónustu við leigutaka. Félagið býr að mikilli reynslu og þekkingu í rekstri stórra mannvirkja eins og Smáralindar, Egilshallar og Höfðatorgsturns. Félagið rekur fjölmargar aðrar fasteignir, þó aðallega á höfuðborgarsvæðinu, þ.á.m. skrifstofubyggingar, þjónustuhúsnæði og verslanir.
Öryggismiðstöðin hefur átt farsælt samstarf við Heima um margvísleg öryggismál, þar á meðal eldvarnir, eigið eldvarnaeftirlit, viðbragðs- og vöktunarþjónustu ásamt því að halda rýmingaræfingar í húsakynnum þeirra. Eitt slíkt verkefni var umfangsmikil rýmingaræfing að Katrínartúni 2, sem fór fram núna nýlega. Katrínartún 2 gengur oftast undir nafninu Höfðatorgsturninn og er með hærri, umfangsmeiri og glæsilegri háhýsum landsins.
Markmið rýmingaræfingarinnar var að staðfesta og samræma aðkomu allra þjónustuaðila brunavarna í húsnæðinu, þ.e. hvar slökkvikerfi, lyftukerfi, vatnsúðakerfi og viðvörunarkerfi þurfa að vinna saman til að tryggja öryggi fólks í rýmingu. Verkefnið var einnig liður í því að staðfesta að öll brunavarna- og viðbragðskerfi virkuðu sem skyldi þegar og ef raunveruleg hætta steðjar að.
Við hjá Öryggismiðstöðinni sáum um að skipuleggja og stýra æfingunni og útbjuggum einnig sérstaka rýmingarstjórapakka fyrir viðkomandi húsnæði – einn pakki fyrir hvern rýmingarstjóra sem inniheldur öll helstu hjálpartæki fyrir aðgerðir á vettvangi. Þetta tryggir að hlutverk hvers og eins rýmingarstjóra er skýrt og viðbragð bæði samræmt og markvisst.